Í gærkvöldi var brotið blað í sögu Þorlákshafnar þegar flutningaskipið MV Lista lagðist að Suðurvararbryggju. Skipið er stærsta skip sem komið hefur til hafnar í Þorlákshöfn.
Lista er 193 m langt og 26 metra breitt, eða á við tvo knattspyrnuvelli að lengd. Smyril Line er með skipið á leigu og leysir það af hólmi Glyvursnesið, sem skemmdist í eldsvoða í byrjun janúar. Lista mun sigla til Þorlákshafnar þar til ný skip Smyril Line verða tilbúin en félagið er með tvö skip af svipaðri stærð í smíðum.
Til samanburðar má nefna að Lista er 40 metrum lengra en bæði Mistral og Glyvursnes, sem áður voru lengstu skip sem lagst hafa við bryggju í Þorlákshöfn.
„Þó framkvæmdum sé ekki að fullu lokið við Suðurvararbryggju markaði koma MV Lista í gærkvöldi tímamót. Það er enginn vafi að þær framkvæmdir sem staðið hafa yfir síðasta áratug eða svo, opna á alls kyns tækifæri fyrir sveitarfélagið og auðvitað nærliggjandi svæði,“ segir Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfuss, í samtali við sunnlenska.is.
„Líkt og áður eru spennandi tímar framundan og mikilvægt að halda áfram að byggja upp innviði hafnarinnar. Enda er höfnin grunnurinn að vexti sveitarfélagsins og þar með velferð íbúa þess,“ bætti hann við.