Heildarveltan á fasteignamarkaðnum á Suðurlandi í júlí var 4,8 milljarðar króna og hefur aldrei verið meiri í einum mánuði. Stærsti mánuðurinn hingað til var maí 2018 þegar veltan var rúmir 4,3 milljarðar króna.
Alls var 142 kaupsamningum um fasteignir á Suðurlandi þinglýst í júlí, þar af voru 24 samningar um eignir í fjölbýli, 77 samningar um eignir í sérbýli og 41 samningur um annars konar eignir.
Af þessum 142 samningum voru 70 samningar um eignir á Selfossi, í Hveragerði og Þorlákshöfn. Þar af voru 14 samningar um eignir í fjölbýli, 54 samningar um eignir í sérbýli og 2 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var tæplega 2,7 milljarðar króna sem er svipað og í júnímánuði.
Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um fasteignamarkaðinn utan höfuðborgarsvæðisins í júlí 2020.