Sveitarfélagið Árborg hefur samið við ÞG-verk um byggingu fyrsta áfanga Stekkjaskóla á Selfossi. Steypuvinna hófst í síðustu viku.
Fyrr í mánuðinum var skrifað undir verksamninginn við ÞG-verk, sem er hinn stærsti í sögu sveitarfélagsins. Fjögur verktakafyrirtæki gerðu tilboð í verkið og hljóðaði tilboð ÞG-verks upp á rúmlega 1.960 milljónir króna. Ístak bauð rúmlega 1.981 milljónir króna, ÍAV rúmlega 1.994 milljónir króna og Flotgólf efh rúmlega 2.150 milljónir króna.
Stekkjaskóli er í nýju hverfi sem er í uppbyggingu sunnan við núverandi byggð á Selfossi. Byggingin verður steypt, tvær hæðir auk kjallara og lagnagangs og er fyrsti áfanginn 2.500 fermetrar. Verkið felst í uppsteypu og fullnaðarfrágangi hússins bæði úti og inni og á því að vera lokið þann 30. júní á næsta ári. Kennsla í byggingunni hefst haustið 2022.
Mannvirkja- og umhverfissvið Árborgar stýrir verkefninu fyrir hönd sveitarfélagsins og hefur undirbúningur gengið vel en í tilkynningu frá Árborg segir að mikil ánægja sé með að hafa náð samningum við ÞG-verk sem er þaulreyndur verktaki.