Stærsti viðburður allra tíma í Iðu

Marinó með verðlaunagrip keppninnar, sem hefur verið sá sami frá upphafi. Á hann eru nú rituð nöfn allra sigurvegara keppninnar og má lesa þar mörg þekkt nöfn. Fyrsti sigurvegari keppninnar, árið 1990, var Lárus Ingi Magnússon frá Fjölbrautaskóla Suðurlands. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það er öllu tjaldað til í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld en þá verður Söngkeppni framhaldsskólanna haldin þar í fyrsta sinn.

Selfyssingurinn Marinó Geir Lillendahl er framkvæmdastjóri keppninnar og hann segir að keppnin verði mikið sjónarspil og í henni taka þátt 25 frábærir keppendur sem koma alls staðar að af landinu.

Sungið á íslensku
„Ein af stóru breytingunum í ár er að við erum að taka aftur upp þá fornu reglu að sungið verður á íslensku. Það var alveg titringur í sumum vegna þessa en svona var þetta áður fyrr og að mínu mati tekur þetta keppnina úr því að vera karókíkeppni yfir í að verða heildstæðari og gefur henni skemmtilegan lit. Vegna þessa munu einhverjar nýjar útgáfur af þekktum lögum hljóma hér í kvöld og það verður spennandi að heyra það,“ segir Marinó.

Rífa keppnina á lappirnar aftur
Söngkeppnin er haldin af Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og hefur í gegnum tíðina verið sannkallaður stórviðburður. Að sögn Marinós hefur áhuginn og umgjörðin dalað talsvert síðustu ár en nú á að spýta í lófana.

„Ég held að þetta sé stærsti viðburður allra tíma í Iðu. Það hefur aldrei komið annað eins magn af tækjum og tólum hingað inn þannig að umgjörðin verður frábær. Við erum að leggja mikið í það að þetta verði á pari við aðrar söngkeppnir sem sýndar hafa verið í sjónvarpi á Íslandi. Keppnin verður í beinni á RÚV og Ríkisútvarpið er að setja mikinn kraft í þetta, sem er mjög ánægjulegt. Það er auðvitað þeirra hlutverk að mínu mati og þau eiga mikið hrós skilið fyrir sína vinnu í þessu hingað til og ég á von á því að þetta verði frábær sjónvarpsþáttur líka,“ segir Marinó og bætir við að upplifunin verði líka mikil fyrir þá sem sitja í salnum.

„Ég vona að skólarnir fjölmenni, það eru einhverjir veðurtepptir fyrir norðan, en það kemur stuðningslið af öllu landinu. Keppnin í ár er mjög heiðarleg tilraun til þess að rífa þetta á lappirnar aftur. Þetta er búið að síga mjög djúpt síðustu ár og við erum að leggja mikið á okkur til þess að endurvekja áhuga nemendafélaganna og skólanna á þessum viðburði. Allir aðrir áhugasamir eru líka velkomnir í salinn, það verður miðasala við hurðina á meðan húsrúm leyfir.“

Dómnefnd og símakosning
Húsið opnar klukkan 19 og keppnin hefst 19:45. Kolbeinn úr SZK og Jóna Margrét úr Idolinu eru kynnar kvöldsins og dómnefndin er ekki af verri endanum. Hana skipa Ragnhildur Gísladóttir, Diljá Péturs og Magnús Kjartan Eyjólfsson. Atkvæði dómnefndar vega 50% á móti símakosningu sem fer í gang um leið og fyrsti keppandi stígur á svið og má nálgast öll símanúmer á songkeppni.is.

Gríðarlega dýrmæt reynsla
Marinó segir að þátttaka í keppni sem þessari sé gríðarleg reynsla og keppnin hefur í mörgum tilvikum verið upphafið á ferli þekkra listamanna.

„Það er rosalega mikið af efnilegum og hæfileikaríkum söngvurum að taka þátt og það er spennandi keppni framundan. Svo er líka augnablikið þegar þú stígur á sviðið, þá verða einhverjir töfrar til, þannig að það munu einhverjir springa út hérna í kvöld. Þetta eru 16-18 ára krakkar og þau eru að æfa með hljómsveit sem er skipuð atvinnumönnum í hverju horni, hér eru líka færustu tæknimenn landsins að vinna í kringum þau. Þetta verður gríðarlega dýrmæt reynsla fyrir þau uppá framtíðina og það er rauði þráðurinn í þessari keppni myndi ég segja. Upp úr þessari keppni hafa komið ansi margir landsfrægir og heimsfrægir íslenskir listamenn,“ segir Marinó að lokum.

Fyrri greinSelfoss kvaddi úrvalsdeildina í hörkuslag í Vallaskóla
Næsta greinLillý söng listavel til sigurs