Lögreglan mældi mótorhjól á 190 km/klst hraða til móts við Ölkelduháls á Hellisheiði um miðjan dag síðastliðinn föstudag.
Lögreglumenn gáfu ökumanninum stöðvunarmerki sem hann virti að vettugi og jók hraðann enn frekar og brunaði austur Heiðina. Hjólið hvarf sjónum lögreglu en lögreglumenn óku svo fram á hjólið og ökumanninn þar sem hann hafði ekið á víravegrið í Kömbunum, fyrir neðan Drottningarpallinn.
Við slysið kastaðist ökumaðurinn yfir á öfugan vegarhelming en víravegriðið greip hjólið og stöðvaðist það í vegkantinum.
Meiðsli mannsins reyndust ekki alvarleg en hann var fluttur til skoðunar á sjúkrahús.
Í dagbók lögreglu kemur fram að 71 annað hraðakstursbrot hafi verið kært í síðustu viku og óku nokkrir hratt, í kringum 140 km/klst.