Stal fjarstýringu og heilsusafa

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi Selfyssing um tvítugt í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í morgun fyrir þjófnað og þjófnaðartilraun.

Maðurinn stal fjarstýringu fyrir Playstation III leikjatölvu að verðmæti 10.995 kr. úr sal í kjallara félagsmiðstöðvarinnar Pakkhússins á Selfossi í apríl í fyrra. Í júní í sumar stakk hann síðan inn á sig einni fernu af heilsusafa að verðmæti 99 kr. í verslun Samkaupa á Selfossi og gekk út án þess að borga.

Auk þess var maðurinn kærður fyrir tilraun til þjófnaðar í sumar þar sem hann fór ásamt félaga sínum inn í bifreið við Seljaveg á Selfossi en mennirnir hlupu á brott þegar húsráðandi varð þeirra var.

Maðurinn játaði skýlaust öllum þremur ákæruliðunum. Hann rauf skilorð með þessu en hann var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi í fyrra fyrir fíkniefnabrot.

Dómara þótti hæfileg refsing vera þriggja mánaða fangelsi en refsingin fellur niður haldi maðurinn skilorð í þrjú ár.

Fyrri greinStórleikur í Vallaskóla í kvöld
Næsta greinÞórsarar skipta um Kana