Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í gær Hvergerðing í fimm mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun auk þess sem maðurinn tengdi framhjá rafmagnsmæli til að framleiða fíkniefnin.
Maðurinn stóð að ræktuninni í íbúðarhúsi í Hveragerði og gerði lögregla upptækar 29 kannabisplöntur í kjallara hússins. Maðurinn játaði skýlaust allar sakargiftir en hann var ákærður fyrir að framleiða efnin í sölu- og dreifingarskyni og að tengja framhjá mæli auk umferðarlagabrots. Talsvert af fíkniefnum fannst í húsinu og voru þau gerð upptæk.
Upp komst um ræktunina þegar lögreglan stöðvaði manninn fyrir fíkniefnaakstur í Hveragerði í janúar síðastliðnum en maðurinn var próflaus þegar hann var stöðvaður.
Dómari dæmdi manninn í fimm mánaða fangelsi auk þess sem hann er sviptur ökurétti í tvö ár. Þá þarf hann að greiða 360.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 24 daga. Auk þess er honum gert að greiða sakarkostnað upp á rúmlega 315.000 krónur.