Lögreglan í Reykjavík hefur handtekið tvo menn sem grunaðir eru um að hafa stolið sjónvarpi og bíl af heimili í Ölfusinu snemma í morgun.
Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um innbrotið í morgun þegar ung móðir vaknaði ásamt barni sínu á heimili í Ölfusinu og sá að búið var að stela sjónvarpi hennar og bíl.
Sendibílstjóri, sem var á leið til vinnu í morgun, tók eftir því að eitthvað var athugavert við bíl, sem hafði verið lagt í stæði í íbúðarhverfi í Reykjavík og hringdi á lögregluna.
Kom þá í ljós að um bíl ungu konunnar var að ræða. Síðar tókst lögreglunni í Reykjavík að finna og handtaka tvo menn sem grunaðir eru um þjófnaðinn.
Mennirnir eru nú í yfirheyrslu hjá lögreglunni á Selfossi.