Tvær kærur bárust lögreglunni á Selfossi um helgina vegna innbrota í sumarbústaði.
Annað tilvikið átti sér stað í Svínahlíð vestan megin við Þingvallavatn. Þaðan var stolið Coleman gasgrilli og Softub-300 rafmangsnuddpotti. Verðmæti þýfisins er metið á um 800.000 krónur. Ljóst er að þjófarnir hafi nokkuð þurft að hafa fyrir því að koma nuddpottinum af staðnum.
Lögreglan leitar eftir vitnum sem hugsanlega hafa orðið vör manna með nuddpott og gasgrill á þessum slóðum. Atvikið hefur átt sér stað milli 11. og 25. september síðastliðinn.
Hinn bústaðurinn er í landi Miðfells við Þingvallavatn. Þaðan var stolið flatskjá, hljómflutningstækjum og áfengi. Talið er að innbrotið hafi átt sér stað á milli 10. og 24. september síðastliðinn.