Starf Orkídeu framlengt um þrjú ár

Frá vinstri: Dóra Björk Þrándardóttir nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun, Bjarni Guðmundsson, framkvæmdastjóri SASS, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Landsvirkjun og Landbúnaðarháskóli Íslands undirrituðu nýlega samning um áframhaldandi stuðning við Orkídeu, samstarfsverkefni um orkutengda nýsköpun í matvælaframleiðslu og líftækni á Suðurlandi.

Samningurinn tekur til næstu þriggja ára, eða til ársloka 2027. Samstarf þessara bakhjarla Orkídeu hefur staðið yfir síðan um mitt ár 2020.

„Það er mikið gleðiefni að fá að halda áfram með kröftugt starf Orkídeu á mikilvægu sviði hringrásarlausna, nýsköpunar, orkuskipta og loftslagsmála. Á starfstíma Orkídeu, sem nálgast fjögur ár núna í desember, höfum við náð að tryggja, með styrksamningum við innlenda og erlenda samkeppnissjóði, rúmlega einn milljarð króna inn á Suðurland. Sumt hefur verið greitt, annað skilar sér á næstu árum. Við hjá Orkídeu höldum því ótrauð áfram okkar starfi og þökkum traustið,“ segir Sveinn Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Orkídeu.

Útlit fyrir fjölgun starfsfólks
Orkídea hefur náð framúrskarandi árangri í sókn í Evrópustyrki með verkefnunum Terraforming LIFE og Value4Farm, auk árangurs í sókn í innlenda samkeppnissjóði með ýmsum fyrirtækjum og frumkvöðlum á Suðurlandi. Heildarfjárhæð styrkja, sem Orkídea og samstarfaðilar hafa aflað úr samkeppnissjóðum á síðustu fjórum árum, nemur um einum milljarði króna. Starfsmenn Orkídeu eru nú þrír talsins, en með þeim fjölmörgu verkefnum og styrkumsóknum sem ýmist eru í undirbúningi eða bíða afgreiðslu hjá ESB, er útlit fyrir fjölgun starfsfólks.

Suðurland er matarkista Íslands með öflugan landbúnað, garðyrkju, sjávarútveg og aðra fæðuframleiðslu sem veitir fjölmörg tækifæri til sóknar í aukna verðmætasköpun og fjárfestingar í gegnum samstarfsverkefni á borð við Orkídeu.

Fyrri greinJólasveinarnir glaðir í rigningunni
Næsta greinHlýjar gjafir til Árbliks og Vinaminnis