Í vor keyptu Ingvar Jóhannesson og Carina Margareta Ek gamla læknisbústaðinn við Mýrarbrautina í Vík í Mýrdal og reka þar nú gistiheimilið Guesthouse Carina með tíu herbergjum.
Ingvar lagðist í talsverða vinnu við að gera húsið upp og má segja að nú sé bæjarprýði af því, og það iðar af lífi á ný.
„Það varð að gera allmiklar breytingar, bæði að innan sem utan,“ segir Ingvar. Húsið var áður tvær íbúðir, en hann braut á milli og bætti við baðherbergjum og úr varð fínasta gistihús. Að utan þurfti að sandblása, skipta um gler og pússa og mála.
Þetta hús á sér mikla sögu að sögn Ingvars. Í því var hreppskrifstofa, tannlæknastofa og jafnvel sparisjóður um tíma í kjallaranum. Ótal kennarar hafa búið þar í gegnum tíðina.
Nýja gistiheimilið var svo opnað í júlí og fékk strax góðar viðtökur, og enn er þar mikið að gera. „Það segir mikið um eftirspurnina og ferðamennskuna hér,“ segir Ingvar.