Verkfall Bandalags háskólamanna hefur nú staðið í tæpar fimm vikur og hefur það haft veruleg áhrif á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.
Starfsemi rannsóknarstofu HSu dróst saman um 70% í apríl vegna verkfalls lífeindafræðinga. Engar rannsóknir eru framkvæmdar á röntgendeildinni nema í bráðatilfellum að fenginni undanþáguheimild eða vegna útkalla bakvaktar eftir kl. 16 á daginn, vegna allsherjarverkfalls geislafræðinga. HSu hefur fengið níu undanþáguheimildir alls vegna bráðatilvika til myndgreininga að öðru leyti liggur starfsemi röntgendeildarinnar niðri eins og áður sagði. Alls hafa 26 undanþágur hafa verið veittar vegna blóðrannsókna sem ekki þola bið.
Þessa dagana stendur yfir atkvæðagreiðsla hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga um heimild til verkfallsboðunar. Fáist sú heimild stefnir í allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga frá og með 27. maí n.k. nema að gengið hafi verið frá kjarasamningi fyrir þann tíma.
Í tilkynningu frá framkvæmdastjórn HSu segir að verkfall hjúkrunarfræðinga yrði HSu erfið viðbót við yfirstandandi verkföll lífeinda- og geislafræðinga.