Rakaskemmdir og mygla hefur greinst í húsnæði Ungmennabúða UMFÍ á Laugarvatni og hefur verið ákveðið að stöðva þar alla starfsemi á meðan unnið verður að úrbótum. Ekki liggur ljóst fyrir hversu langan tíma starfsemin mun liggja niðri. Næstu skref er að gera framkvæmdaáætlun og mun hún leiða það í ljós.
Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Skóla og ungmennabúða UMFÍ, segir ömurlegt að þurfa að grípa til þessara aðgerða og ljóst að einhverjir hópar grunnskólabarna sem áttu pantaða dvöl í Ungmennabúðunum þurfi að sitja heima.
„Okkar fyrsta hugsun er að huga að öryggi og heilsu starfsfólks búðanna sem og barnanna og kennaranna sem koma í ungmennabúðirnar. Þau eru alltaf í fyrsta sæti hjá okkur. Við vitum að börnin og foreldrar þeirra og forráðafólk hafa safnað fyrir dvölinni á Laugarvatni. En á meðan verið er að meta ástand hússins og næstu skref þá viljum við loka búðunum. Við höfum farið yfir heildarúttektina með forsvarsfólki Bláskógabyggðar, fundað með stjórnendum og starfsfólki UMFÍ og haft samband við þá grunnskóla sem eiga pantaða dvöl á Laugarvatni til að upplýsa um þessa stöðu,“ segir Sigurður.
Vilja grípa strax til úrbóta
Húsnæði Ungmennabúða UMFÍ er í eigu Bláskógabyggðar og sér UMFÍ um reksturinn. Húsnæðið var skoðað í framhaldi af ábendingum. Skoðunaraðili rakamældi það og tók sýni á nokkrum stöðum sem send voru til rannsóknar í Danmörku.
„Niðurstöðurnar voru á þann veg að bregðast þarf við stöðunni. Raki mældist í steyptum útveggjum og nokkuð var um skemmdir sem m.a. má rekja til óþéttra glugga. Myglumyndun hefur líka greinst í húsinu. Allir sem málið snerta voru sammála um að bregðast þurfi við og grípa til aðgerða til að laga húsnæðið. Verið er að teikna upp viðbrögð og aðgerðir. Þótt það sé sárt þá verðum við að loka starfseminni tímabundið,“ segir Sigurður.
Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar, segir það vera miður að húsnæðið sé í þetta slæmu ástandi.
„Við erum að átta okkur á umfangi verkefnisins í samráði við sérfræðinga á þessu sviði. Hugur okkar er hjá börnunum sem komast nú ekki í Ungmennabúðirnar. En við bindum vonir við að þau geti notið dvalar í fallegu umhverfi að Laugarvatni fyrr en síðar,“ segir Ásta.
Frá þessu er greint á heimasíðu UMFÍ