Starfsfólk Birtu plantaði trjám á Haukadalsheiði

Starfsfólk Birtu og makar búa sig undir gróðursetningu í samningssvæði Birtu á Haukadalsheiði. Ljósmynd af vef Birtu.

Hópur starfsmanna Birtu lífeyrissjóðs gróðursetti á dögunum 1.800 trjáplöntur á Haukadalsheiði í samræmi við þriggja ára samning við Skógræktina um gróðursetningu og skógrækt þar á þremur hekturum lands.

Hópurinn naut sín vel í blíðunni á Haukadalsheiði við gróðursetningu á landi sem lúpínan hefur grætt upp og verður brátt gróskumikill skógur. Ljósmynd af vef Birtu
Hópurinn naut sín vel í blíðunni á Haukadalsheiði við gróðursetningu á landi sem lúpínan hefur grætt upp og verður brátt gróskumikill skógur. Ljósmynd af vef Birtu.

Frá þessu er sagt á vef Birtu og fram kemur að í þetta sinn hafi  verið gróðursett stafafura. Alls er gert ráð fyrir að settar verði niður 7.500 plöntur á samningstímanum, stafafura, sitkagreni og alaskaösp.

Skógræktin annast gróðursetninguna að miklu leyti en starfsmenn sjóðsins hafa líka óskað eftir að fá að leggja hönd á plóginn. Svæðið sem gróðursett hefur verið í gengur nú undir heitinu Birtuskógur og þar geta starfsmenn og fjölskyldur þeirra fylgst með skóginum vaxa og dafna á komandi árum.

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, fór með starfsmönnum Birtu og mökum þeirra á Haukadalsheiðina til að aðstoða og leiðbeina við gróðursetninguna. Vel viðraði til útiveru og útivinnu og hópurinn naut sín vel í fegurð Haukdalsheiðar þar sem  fjallahringurinn blasir við og uppsveitir Árnessýslu.

Þar sem Birtuskógurinn er nú tekinn að spretta var áður örfoka land. Sandfokið var stöðvað með hjálp lúpínu. Lúpínulandið var jarðunnið fyrir gróðursetningu og gróðursetti hópurinn trjáplönturnar í rásirnar. Vel gekk að stinga niður plöntunum 1.800 og hópurinn er spenntur að sjá hvernig þær koma undan vetri næsta vor.

Trausti skógarvörður tekur til geispurnar fyrir gróðursetninguna. Ljósmynd af vef Birtu
Trausti skógarvörður tekur til geispurnar fyrir gróðursetninguna. Ljósmynd af vef Birtu.

Samningur Birtu lífeyrissjóðs og Skógræktarinnar var undirritaður í Haukadal í september í fyrra. Hann eitt af „grænum skrefum“ í starfsemi sjóðsins, eins og það er orðað á vef sjóðsins. Þar er meðal annars markmiðið er kolefnisjafna starfsemi sjóðsins og stuðla um leið að því að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti og binda jarðveg á gróðursnauðu svæði. Í samningnum er kveðið á um að kolefnisbinding og kolefnisforði í trjám, botngróðri og jarðvegi á Haukadalsheiði verði eign Birtu til ársins 2068.

Fleiri myndir frá gróðursetningardeginum er að finna á vef Birtu lífeyrissjóðs.

Fyrri greinEigendur báta hvattir til að festa þá tryggilega
Næsta greinRafmagslaust eftir bilun í Þorlákshafnarlínu