Fengur í Hveragerði stefnir að því að fjölga starfsmönnum sínum um helming þannig að upp úr áramótum verði 6 til 7 starfsmenn hjá fyrirtækinu, sem framleiðir spón, einkum fyrir hesthús.
Að sögn Sigurðar Halldórssonar, framkvæmdastjóra og eiganda félagsins, hefur vinnslan gengið vel undanfarið og framundan er helsti sölutími ársins. Lætur nærri að árssalan sé um 6.000 tonn af spóni og fer það mest til hestamanna. Fyrir tveimur árum var spónn fluttur inn fyrir 500 milljónir króna á ári en nú hafa innlendir framleiðendur að mestu tekið yfir þennan markað.
Fram til 15. desember verður boði upp á fría heimsendingu fyrir þá sem kaupa 50 bala eða meira hjá Feng. Í vinnsluna er notað timbur sem fellur til í landbúnaði, vörubretti eða hreint timbur. Allt járn er seglað út úr timbrinu í ferlinu og sagði Sigurður að lagt hefði verið í talsverða fjárfestingu vegna vélakostsins.
Að sögn Sigurðar er lögð áhersla á að nota vistvæna orkugjafa til framleiðslunnar. ,,Þess vegna var endurvinnslunni valin staðsetning í Hveragerði þar sem jarðgufa nýtist við framleiðsluferlið,“ sagði Sigurður.