Starfsmenn fá úttektarkort í stað árshátíðar

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar samþykkti á síðasta fundi sínum að starfsmenn sveitarfélagsins fái úttektarkort til að gera sér glaðan dag þar sem ekki var unnt að halda árshátíð sveitarfélagsins í haust.

Árshátíðin var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins og samþykkti bæjarráð að því fé sem ætlað var til árshátíðarhalda, ásamt jólagjöf sveitarfélagsins til starfsmanna, verði fært starfsfólki í formi glaðnings á úttektarkorti.

„Starfsfólki er að sjálfsögðu frjálst að ráðstafa fjárhæðinni að eigin vali en bæjarráð hvetur starfsfólk til að gera sér glaðan dag á sínum heimaslóðum eftir því sem aðstæður leyfa,“ segir í bókun bæjarráðs.

„Árið sem er að líða hefur lagt þungar byrðar á mikinn fjölda starfsmanna sveitarfélagsins og hafa þeir sannarlega staðið undir þeim byrðum og í mjög erfiðum aðstæðum skilað verki sem mikill sómi er af. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að halda árshátíð með venjubundnum hætti vill bæjarstjórn með þessu sýna þakklæti sitt og jafnframt hvetja fólk til að gleðjast í skammdeginu, stolt yfir öllum þeim góðu verkum sem unnist hafa,“ segir ennfremur í bókuninni.

Fyrri greinTokic bestur og Þorsteinn Aron efnilegastur
Næsta greinSveitarstjórn Bláskógabyggðar ítrekar mikilvægi búfjárvarnarlína