Mikil og góð aðsókn hefur verið að sundlauginni í Laugaskarði í Hveragerði á þessu ári í kjölfar góðrar aðsóknar á síðasta ári.
Árið 2009 komu tæplega 75 þúsund gestir í sundlaugina en voru ekki nema 62 þúsund árið 2008. Það sem af er þessu ári hafa komið 45 þúsund gestir og átti Arnfríður Þráinsdóttir, forstöðukona sundlaugarinnar, von á að fjöldinn yrði svipaður og í fyrra þegar upp væri staðið.
Virðist ekki ætla að skipta miklu máli þó laugin sjálf hafi verið lokuð í maí vegna viðgerða. Að sögn Arnfríðar hefur þess verið gætt að halda lauginni vel við og verður framhald á því en nú er unnið að því að setja upp nýja skápa í hluta búningsklefanna.