Veiðimálastofnun vinnur nú að nokkrum verkefnum í Þjórsá samkvæmt samningi við Landsvirkjun. Þar á meðal er unnið að stofnstærðarmati fyrir Kálfá.
Að sögn Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra hjá Veiðimálastofnun, er stefnt að því að setja upp teljara í ánni á næsta ári. Í ár hefur verið unnið við að merkja seiði sem hafa gengið upp í Kálfá en að sögn Guðna vantar mat á stofnstærð.
Árið 1991 var settur laxastigi við Búða og hefur nokkur lax þannig gengið upp á efri svæði Þjórsár. Laxastiginn hefur þannig haft í för með sér aukna útbreiðslu um leið og stofninn hefur stækkað. Guðni segir að það yrði án efa spennandi að fá einhverja stofnstærðarmælingu á honum.