Að sögn Margrétar Magnúsdóttur rekstrarstjóra gistiheimilisins Kvöldstjörnunnar á Stokkseyri ríkir talsverð bjartsýni varðandi reksturinn í sumar og bókunarstaða er góð.
,,Við erum mjög bjartsýn enda er bókunarstaðan mjög góð og reyndar talsvert betri en á síðasta ári,” segir Margrét en hún er eigandi hótelsins ásamt systkinum sínum. Gistiheimilið opnaði 2007 og er nú nánast eina gistiaðstaðan sem býðst á Stokkseyri.
Að sögn Margrétar vantar gistingu á þessu svæði og telur hún reyndar að það vanti sameiginlegt átak til þess að kynna möguleika svæðisins við suðurströndina. Yfir sumartímann eru það einkum útlendingar sem nýta sér gistinguna en á veturna eru Íslendingar fjölmennastir.
Kvöldstjarnan býður nú upp á gistingu í 10 rúmum en með smá tilfæringum er hægt að fjölga þeim upp í 12. Að sögn Margrétar er ráðgert að stækka gistiheimilið um helming. Verður það gert með því að breyta öðru húsi sem eigendur Kvöldstjörnunnar eiga við hliðina. Verður það endurgert um leið og færi gefst og tengibygging byggð á milli. ,,Þá fáum við hentugari einingu og getum tekið við stærri hópum,” sagði Margrét.