Velferðarráðuneytið og Sveitarfélagið Árborg hafa samið við Arkitektafélag Íslands um að sjá um hönnunarsamkeppni vegna fyrirhugaðrar byggingar hjúkrunarheimilis á Selfossi.
Samkeppnin verður opin og verða veitt þrenn verðlaun, samtals 10 milljónir króna. Fyrstu verðlaun verða að lágmarki 5 milljónir króna. Velferðarráðuneytið og Sveitarfélagið Árborg greiða Arkitektafélaginu samtals eina milljón króna í þóknun vegna samkeppninnar. Hlutur Árborgar í þeirri þóknun er 160 þúsund krónur en sveitarfélagið greiðir 16% af stofnkostnaði byggingarinnar á móti ríkinu.
„Það er gert ráð fyrir að hönnunarsamkeppnin verði auglýst núna á allra næstu dögum og að henni verði lokið um mánaðarmótin september/október. Niðurstöður verða þá kynntar opinberlega hér á Selfossi og uppdrættir verða til sýnis fyrir alla sem áhuga hafa. Í framhaldinu af því verður haldið áfram með hönnunarvinnu og gerð útboðsgagna og verkið boðið út í byrjun árs 2018,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar.
Áætlað er að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun á Selfossi á öðrum ársfjórðungi ársins 2019. Það verður reist á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg. Ásta segir að það verði lagt í hendur hönnuðar að ákveða nákvæma staðsetningu hússins innan lóðarinnar. Niðurstaða staðarvals mun því liggja fyrir um leið og niðurstöður hönnunarsamkeppninnar.
„Lóð HSU er stór og það eru fleiri en einn staður sem kemur til greina og það hafa verið gerðar ítarlegar jarðvegsrannsóknir á lóðinni til að auðvelda mat á því hvar heppilegast sé að koma byggingunni fyrir,“ segir Ásta.
Gert er ráð fyrir 50 rýmum á nýja hjúkrunarheimilinu en að sögn Ástu hefur verið lögð mikil vinna í það af fulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna víðar að af svæðinu að fá heimild til þess að reisa hjúkrunarheimili sem geti tekið við fleiri íbúum en fimmtíu. „En enn sem komið er benda viðbrögð ráðuneytisins ekki til þess að árangur náist í þeirri baráttu,“ segir Ásta ennfremur.