
Stöpullinn fyrir afsteypu af styttu Nínu Sæmundson, Afrekshugur, hefur verið settur á sinn stað á miðbæjartúninu á Hvolsvelli.
Stefnt er að því að Afrekshugur verði afhjúpaður við hátíðlega athöfn í ágústmánuði. Styttan sjálf, svæðið í kring um hana og aðkoma að henni verður hin glæsilegasta en verkið er afsteypa af verki Nínu Spirit of Achievement, sem hefur staðið fyrir ofan anddyri Waldorf Astoria hótelsins í New York síðan 1931.
Stöpullinn er steyptur af BM Vallá og er gjöf fyrirtækisins til þessa verkefnis. Hann er útfærður og teiknaður af Kristni Mána Svavarssyni hjá Mannvit-verkfræðistofu undir stjórn Tryggva Jónssonar, en Mannvit gaf einnig sína vinnu til verkefnisins.