Stefnt að opnun í lok nóvember

Framkvæmdir eru í fullum gangi við nýja verslun Nettó á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Stefnt er að opnun nýrrar Nettó verslunar við Eyraveg 42 á Selfossi þann 29. nóvember næstkomandi.

„Við stefnum á opnun þann 29. nóvember en það fer eftir því hvernig framkvæmdir ganga á lóðinni hvort þessi dagsetning gengur upp. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að opna fyrir jól með kröftugri verslun í desember, til að bjóða Selfyssingum einstaka jólaupplifun og frábæra jólaverslun,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.

Nýja verslunin er um 1.000 fermetrar og verður fimmta græna verslun Nettó sem þýðir að allt kapp verði lagt á að lágmarka kolefnisspor verslunarinnar.

Öll tæki verða keyrð á umhverfisvænum orkumiðli, LED lýsing verður í versluninni, allt sorp flokkað og allir frystar og megnið af kælum lokaðir.

Fyrri greinSöfnuðu fyrir Krabbameinsfélagið með kökusölu
Næsta greinAlvöru ’80s dúett á Sviðinu