Stefnt að opnun Nettó 13. desember

Framkvæmdir eru í fullum gangi við nýja verslun Nettó á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Selfyssingar og nærsveitungar bíða með mikilli eftirvæntingu að ný Nettóverslun opni að Eyravegi 42 á Selfossi.

Upphaflega stóð til að nýja verslunin myndi opna síðastliðið sumar en það gekk ekki eftir. Í framhaldinu var áætlað að opna í lok nóvember en vegna frosts í jörðu hafa framkvæmdir tafist. Nú er fyrirhuguð opnun föstudaginn 13. desember og er vonast til að það gangi eftir.

„Húseigandi er að leggja allt í að bílaplanið verði klárt 13. desember en frost í jörðu hefur gert síðustu misseri erfiðari fyrir að klára jarðvinnu, svo hægt sé að opna verslunina. Við vonum því innilega að það verði gleðileg jól á Eyravegi þann 13. desember en það veltur allt á því að bílaplanið verði klárt fyrir viðskiptavini,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa, í samtali við sunnlenska.is.

Nýja verslunin verður um 1.000 fermetrar og verður fimmta græna verslun Nettó, sem þýðir að allt kapp verði lagt á að lágmarka kolefnisspor verslunarinnar.

Fyrri greinGuðrún Árný með jólatónleika á Suðurlandi í næstu viku
Næsta greinFullt út úr dyrum en fáir frambjóðendur