Héraðsdómur Suðurlands vísaði í gær frá stefnu Krónunnar gegn Sveitarfélaginu Árborg og Heilbrigðiseftirliti Suðurlands vegna svokallaðs brauðbars.
Krónan gerði þá kröfu að dómurinn felldi úr gildi úrskurð heilbrigðiseftirlitsins um að brauðmeti verslunarinnar skyldi varið með umbúðum sem tryggði vöruna gegn mengun en héraðsdómur taldi stefnuna ekki uppfylla skilyrði laga um skýra og glögga kröfugerð.
RÚV greinir frá þessu.
Í mars á þessu ári hafði heilbrigðiseftirlitið gert athugasemdir við að óvarið brauð væri á boðstólunum í versluninni og að ekkert hindraði að viðskiptavinir hnerruðu eða hóstuðu yfir brauðið eða meðhöndluðu það með berum höndum.
Eftir kröftug mótmæli ákvað Krónan að lokum að beygja sig undir vilja eftirlitsins og breyta því hvernig brauðinu var stillt upp en ákvað engu að síður að stefna eftirlitinu til að fá ákvörðun þess hnekkt. Í stefnunni var ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins sögð íþyngjandi og nauðsynjalaus.