Steinn bauð lægst í Suðurhólana

Suðurhólarnir munu lengjast í norðaustur og tengjast Gaulverjabæjarvegi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gröfuþjónusta Steins á Selfossi átti lægsta tilboðið í gatnagerð og lagnir í austasta hluta Suðurhólanna á Selfossi.

Tilboð Steins hljóðaði upp á 83,4 milljónir króna en vörubílstjórafélagið Mjölnir átti næstlægsta tilboðið, 89,7 milljónir króna. Egill Guðjóns ehf bauð 95,8 milljónir og Borgarverk 106,6 milljónir króna.

Öll tilboðin reyndust því undir kostnaðaráætlun Sveitarfélagsins Árborgar, sem hljóðar upp á 106,8 milljónir króna.

Um er að ræða gerð götunnar Suðurhólar, frá Austurhólum að Gaulverjabæjarvegi, ásamt ljósastaurum, fráveitu, vatns- og hitaveitulögnum og fjarskiptarörum.

Verkinu á að vera að fullu lokið þann 1. nóvember næstkomandi.

Fyrri greinSelfoss verður með í Evrópubikarnum
Næsta greinFramrás lægstbjóðandi í tveimur útboðum