Hrafntinnusteinninn „Steinn víðförli“ hefur snúið heim í Dómadalshraun eftir ferðalag um heiminn.
Þessi fallegi hrafntinnusteinn er um 180 sentimetrar á hæð. Steinninn var tekinn úr Dómadalshrauni árið 2006 og fluttur á Feneyjatvíæringinn, þekkta listsýningu sem haldin er árlega í Feneyjum á Ítalíu. Umhverfisstofnun veitti fyrir því leyfi að steinninn væri tekinn og sendur þessa löngu leið með því skilyrði að honum yrði skilað á sinn stað að sýningu lokinni.
Miklar umræður skópust meðal félaga í Ferðaklúbbnum 4×4 um örlög steinsins fagra og söknuðu hans margir. Fór svo að Dagur Bragason í umhverfisnefnd 4×4 hóf að grennslast fyrir um örlög steinsins og sendi inn fyrirspurn til Umhverfisstofnunar.
Í framhaldinu fékk hann það svar að steinninn hefði eftir Ítalíuferðina verið sendur til Brussel á sýningu þar, og væri í geymslu í Reykjavík. Í sumar var steininum svo skilað á sinn stað í Dómadalshrauninu rétt við veginn upp úr Dómadal.