Sterk fjárhagsstaða Sveitarfélagsins Ölfuss

Á fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss í gær var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2013 tekinn til síðari umræðu og staðfestingar.

Rekstrartekjur A-hluta voru alls 1.488,9 milljónir króna en rekstrarútgjöld 1.303,8 milljónir og rekstrarniðurstaða fyrir því fjármagnsliði jákvæð um 185,1 milljónir króna.

Fjármagnskostnaður nettó var kr. 99,8 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A-hluta því jákvæð um 85,3 milljónir.

Rekstrartekjur samstæðu, þ.e. A- og B hluta, voru alls 1.655,3 milljónir króna en rekstrarútgjöld 1.437,8 milljónir og rekstarniðurstaða fyrir fjármangsliði því jákvæð um 217,4 milljónir króna.

Fjármagnskostnaður samstæðunnar nettó var 123,6 milljónir og hagnaður samstæðunnar því 93,8 milljónir króna.

Í fréttatilkynningu segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri, að heilt yfir hafi rekstur sveitarfélagsins gengið vel á síðasta ári og að verulegur bati hafi orðið á fjárhag þess og rekstrarumhverfi á kjörtímabilinu. Tekjur hafa aukist á milli ára, umfram áætlanir og þó svo rekstrarkostnaður hafi aukist er hann innan þeirra marka sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Veltufé frá rekstri samstæðunnar var 303.2 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar eða afborganir skuldbindinga voru 118,1 milljónir. Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum fyrir 209,7 milljónir og handbært fé í árslok var 279,8 milljónir króna.

Eignir samtals í árslok voru færðar að fjárhæð 4.130,6 milljónir króna en skuldir samtals voru færðar að fjárhæð 2.150,7 milljónir og eigið fé því bókfært 1.979,9 milljónir króna. Langtímaskuldir í árslok voru 1.884,6 milljónir og lækkuðu á árinu um 41,2 milljónir króna. Lífeyrisskuldbinding hækkar um 14,1 milljónir milli ára og er 332,4 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri samstæðunnar var 19,37% en fjárfestingarhreyfingar samstæðunnar voru 12,68%.

Veltufjárhlutfall A-hluta var 1,22 og þrátt fyrir lækkun milli ára er hlutfallið áfram sterkt. Eiginfjárhlutfall A-hluta heldur áfram að styrkjast og var í lok árs 43%.

Stærstu einstöku verkefnin sem áhrif höfðu á fjárhag ársins 2013 voru kaup á íþróttamannvirkjum, sem áður voru leigð, af Eignarhaldsfélaginu Fasteign ehf., endurfjármögnun langtímalána og bygging 500 fm. húsnæðis við Leikskólann Bergheima.

Á fundi bæjarstjórnar í lok ágúst s.l. var samþykkt að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 940 milljónir króna vegna kaupa á íþróttamannvirkjunum. Kaupverð fasteignanna alls var um 978 milljónir en mismunurinn var greiddur af handbæru fé sveitarfélagsins. Gunnsteinn segir hagræðinguna með þessum kaupum í raun tvíþætta; veruleg fjárhagsleg hagræðing og innbyggðri áhættu í flóknum leigusamningi um fasteignirnar var aflétt. „Jákvæðra áhrifa á eftir að gæta í framtíðarrekstri sveitarfélagsins vegna þessarar breytingar,“ segir Gunnsteinn.

Á fundi bæjarráðs um miðjan júlí var samþykkt að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 220 m.kr. til þess að greiða niður verulega dýrari lán, þ.e. með mun hærri vöxtum en með sömu höfuðstólsfjárhæð. Skuldbindingunni var dreift yfir 10 ár, sem er töluvert lengri tími en líftími þeirra lána sem greidd voru upp. Megin tilgangurinn með þessu var sá að lækka greiðslubyrði á næstu árum sem er lykilforsenda þess að ekki er þörf á lántöku til áætlaðra framkvæmda sem farið verður í á næstu misserum. Þessi aðgerð muni því skila verulegri fjárhagslegri hagræðingu inn í framtíðina.

Leikskólabyggingin við Bergheima var tekin í notkun nýlega og mun rúma tvær u.þ.b. 20 barna deildir auk þess sem alger bylting er í vinnuaðstöðu fyrir starfsfólk leikskólans. Samhliða nýbyggingunni var ráðist í endurbætur og stækkun á leikskólalóðinni. Lang stærstur hluti fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum liggur í þessari framkvæmd.

Þrátt fyrir þessar fjárfestingar lækka langtímaskuldir og skuldbindingar á milli ára. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðunnar megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglubundnum tekjum. Skuldahlutfall sveitarfélagsins í árslok 2013 var 110,7%, hafði lækkað um tæp 4% á milli ára þrátt fyrir verulegar fjárfestingar og því vel undir því hámarki sem lög kveða á um.

Gunnsteinn segir að fjárhagsstaða sveitarfélagsins sé sterk og mikill viðsnúningur hafi orðið á líðandi kjörtímabili. Áætlanir sveitarfélagsins gera ráð fyrir áframhaldandi eflingu grunnþjónustu og lækkun skuldbindinga.

Fyrri greinÚthlutað úr afreks- og styrktarsjóði
Næsta greinBrynjar og Perla í Ísland Got Talent á sunnudaginn