Sterkur grunur um falsboð

Frá leitinni í Kerlingarfjöllum í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg

Lögreglustjórinn á Suðurlandi, að höfðu samráði við Landsbjörgu, hefur ákveðið að fresta leit að ferðamönnum á Kerlingarfjallasvæðinu þar til frekari vísbendingar koma fram.

Neyðarlínunni bárust neyðarboð kl. 22:18 í gærkvöldi þess efnis að tveir aðilar væru innlyksa í helli á svæðinu. Umfangsmikil leit stóð yfir í alla nótt og fram eftir degi í dag.

Lögreglan á Suðurlandi hefur í dag unnið að því með aðstoð tölvurannsóknardeildar LRH og fleiri sérfróðra aðila að greina uppruna neyðarbeiðninnar sem um ræðir. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að sterkar vísbendingar hafi nú komið fram sem benda til að um falsboð sé að ræða.

Í ljósi þess, sem og því að leitin hefur ekki skilað neinum nýjum vísbendingum, hefur leit því verið frestað.

Lögreglan á Suðurlandi þakkar öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að leitinni með einum eða öðrum hætti.

Fyrri greinRafmagnslaust í Rangárþingi í nótt
Næsta greinSesar skaut Selfyssingum í undanúrslitin