Stéttafélagið ehf í Hafnarfirði átti lægsta tilboðið í 3. áfanga viðbyggingar við Grunnskólann í Hveragerði.
Tilboð Stéttafélagsins hljóðaði upp á 820,7 milljónir króna og var 10,3% yfir kostnaðaráætlun Hveragerðisbæjar, sem er 744 milljónir króna.
Alefli ehf bauð 842,8 milljónir króna og Jáverk ehf bauð 908 milljónir króna.
Viðbyggingin verður staðsett vestur af núverandi skóla við Skólamörk 6, byggingin er staðsteypt á tveimur hæðum ásamt lagnakjallara, um 1.120 fermetrar í heild.
Verkið felst í jarðvinnu, uppsteypu byggingarinnar og fullnaðarfrágangi að utan og innan ásamt lóðafrágangi og á verkinu að vera lokið þann 15. ágúst á næsta ári.