Steypt slitlag var lagt út á nýja brú yfir Steinavötn í Suðursveit um síðustu helgi.
Yfirbygging brúarinnar var steypt í lok september, uppspennu var lokið viku síðar og um síðustu helgi var óhætt að steypa slitlag á hrjúft burðarlagið.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að steypta slitlagið sé þéttara en venjuleg steypa, hleypi síður vatni og salti í gegn og sé vörn fyrir burðarsteypu yfirbyggingar, uppspennukapla og járnbendingu. Þá verður yfirborðið mun sléttara með steyptu slitlagi og auðveldar viðhald til muna auk þess sem það endist lengur en malbik.
Slitsterk steypa hefur meðal annars verið notuð með góðum árangri á Sogsbrú og Ölfusárbrú.