Steypudrangur ehf í Vík í Mýrdal bauð lægst í endurbyggingu Hrunavegar í Hrunamannahreppi sem vinna á að í sumar.
Tilboð Steypudrangs hljóðaði upp á 118,9 milljónir króna og var 8,8% yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem var 109,3 milljónir króna.
Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir bauð 121,5 milljónir króna og Suðurtak í Grímsnes- og Grafningshreppi bauð 128,7 milljónir króna í verkið.
Um er að ræða endurbyggingu vegarins á 3,6 km kafla frá Skeiða- og Hrunamannavegi að Kaldbaksvegi. Verkinu á að vera lokið þann 1. október næstkomandi.