Ísstíflan við Efri-Laugardælaeyju í Ölfusá hefur stækkað nokkuð frá því í gær en yfirborð árinnar hefur ekki hækkað til muna fyrir ofan stífluna.
Um miðjan dag í dag hafði formaður svæðisstjórnar björgunarsveitar samband við lögreglu og bauð fram aðstoð drónahóps Björgunarfélags Árborgar, sem mætti í kjölfarið á staðinn og myndaði stífluna og umhverfi árinnar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi er lítill þrýstingur á stífluna þar sem állinn austan við eyjuna er alveg opinn, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Að sögn Kjartans Björnssonar, formanns almannavarnarnefndar Árborgar, er fylgst vel með stöðu mála á árbakkanum. „Nefndin mun funda á þriðjudagsmorgun með viðbragðsaðilum og yfirmönnum á framkvæmdasviði sveitarfélagsins,“ sagði Kjartan í samtali við sunnlenska.is.
Eins og sunnlenska.is greindi frá í gær, fyrstur fjölmiðla, er óalgengt að stífla myndist á þessum stað og töluvert mikið vatn hefur safnast saman fyrir ofan fyrirstöðuna. Áin fer meðal annars yfir veg á austurbakkanum, þannig að ófært er að borholum Selfossveitna á Lambhagatá við Ósabotna.