Fulltrúaráð Sjálfstæðisfélaganna í Árborg kom saman í kvöld á fundi í Tryggvaskála á Selfossi. Á fundinum var samþykkt að fara í uppstillingu við val á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Til þess að samþykkja uppstillingu þarf samkvæmt skipulagsreglum flokksins tvo/þriðju greiddra atkvæða og var niðurstaða fundarins að 76 prósent vildu fara í uppstillingu.
Kosið var í uppstillingarnefnd á fundinum og kemur hún til með að hefja störf fyrstu vikuna í febrúar.
Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Árborgar á yfirstandandi kjörtímabili, fimm fulltrúa af níu.
Sandra Dís Hafþórsdóttir, bæjarfulltrúi, hyggst ekki gefa kost á sér á lista fyrir komandi kosningar en samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa aðrir bæjarfulltrúar flokksins hug á því að gefa kost á sér áfram.
Kjartan Björnsson, bæjarfulltrúi, lýsti því yfir á Facebook á dögunum að hann hyggðist bjóða fram krafta sína áfram og það sama hefur Sveinn Ægir Birgisson gert, en hann hefur meðal annars setið í ungmennaráði Árborgar.