Stjórnendadagur í fyrsta sinn á HSu

Í síðustu viku var haldinn stjórnendadagur í fyrsta sinn á Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir að ný stofnun varð til með sameiningu þriggja heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi.

Alls sóttu um 40 stjórnendur daginn og voru margir að hittast í fyrsta sinn. Dagurinn var nýttur bæði fyrir fræðslu og til stefnumörkunar. Farið var yfir skipulag á HSu, kynntar voru nýjungar í sjúkraskrá og innleiðing á sjúklingavefnum Veru. Einnig var rætt um þjónustustýringu á stofnuninni í heild sinni, árangursmælingar og starfsmannasamtöl.

Stjórnendur tóku einnig höndum saman og unnu að stefnumótandi málefnum varðandi mannauðsmál, rekstur, þjónustu og skipulag vinnuferla á stofnuninni.

Í lok dagsins ávarpaði heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, stjórnendur á HSU. Ráðherra skoðaði jafnframt húsnæði HSU á Selfossi og átti fund með framkvæmdastjórn. Heilbrigðisráðherra fór yfir framkvæmd og skipulag nýrra sameinaðra stofnanna í heilbrigðisumdæmum landsins og ræddi um rekstrarstöðu HSu.

Ráðherra kynnti stjórnendum HSu verkefnið „Betri heilbrigðisþjónusta“ og ræddi þar m.a. um þjónustustýringu og leiðir til að efla heilsugæslu og samfellu í þjónustu við sjúklinga. Jafnframt fór hann yfir verkefni sem er til skoðunar um fjármögnun eftir forskrift þar sem hugmyndin er að fé til heilbrigðisþjónustu fylgi sjúklingi. Ráðherra ræddi einnig um endurskoðun sem nú er unnið að varðandi greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja og möguleika við að setja hámark á útgjöld einstaklinga og réttmætari dreifingu kostnaðar.

Farið var yfirupplýsisgjöf um heilbrigðiskerfið þar sem ný símaráðgjöf og gagnvirk heimasíða munu þjóna því hlutverki að stórauka yfirsýn yfir hvert leita má eftir þjónustu. Að lokum áttu stjórnendur samtal með heilbrigðisráðherra um ýmis mál er varða heilbrigðisþjónustuna og málefni HSu sérstaklega.

Í pistli á heimasíðu HSu segir Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri, að það hafi verið afar ánægjulegt að fá ráðherra til fundar við stjórnendur á nýrri stofnun og dagurinn hafi tekist vel í alla staði enda mörg spennandi og krefjandi verkefni framundan.

Fyrri greinHvergerðingum fjölgar vel umfram landsmeðaltal
Næsta greinAllt undir í kvöld