Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga, BÍL, hvetur stjórnvöld til að standa vörð um listsköpun áhugamanna og áhugaleikhúsið sérstaklega.
Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi BÍL í Edinborgarhúsinu á Ísafirði um síðustu helgi segir að skerðingar á fjárstuðningi undanfarin ár dragi mátt úr hreyfingunni og rýri möguleika áhugaleikhússins til að eflast og þroskast.
„Starf áhugafólks að listsköpun er mikilvægur þáttur í öllum heilbrigðum samfélögum. Það á ekki síst við um listgreinar þar sem hópar fólks vinna að sameiginlegri rannsókn og tjáningu á mannlífinu, listgreinar á borð við leikhúsið.
Það er almennt viðurkennt að íslenskt áhugaleikhús er miðlægt í íslenskri leiklist og íslenskri menningu. Stór hluti Íslendinga á sína fyrstu snertingu við töfra leikhússins meðal áhugamanna, hvort heldur er sem áhorfendur eða þátttakendur.
Með þátttöku í starfi áhugaleikfélaga eflist fólk í skilningi á samfélagi sínu. Samskiptahæfni skerpist, hæfileikinn til að setja sig í spor annarra þroskast. Í leikhúsi áhugamanna starfar fólk hlið við hlið að sameiginlegu marki, einstaklingar með ólíkan bakgrunn, í mismunandi aðstæðum og úr öllum starfsstéttum. Slík samvinna er óendanlega dýrmæt, ekki síst við aðstæður eins og ríkja núna á Íslandi.
Fjárveitingar til starfseminnar vega ekki þungt fyrir ríkissjóð en skipta sköpum fyrir þetta mikilvæga grasrótarstarf sem hefur svo margt dýrmætt til málanna að leggja,“ segir m.a. í ályktuninni.