Rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi hefur leitt í ljós að maðurinn sem drukknaði í Reynisfjöru í morgun stóð á 50 sm háum stuðlabergssteini í nokkurra metra fjarlægð frá stuðlaberginu í Reynisfjalli og var þar við myndatöku þegar aldan greip hann.
Úthafsalda braut þá á steininum og greip manninn sem sogaðist út með henni og drukknaði. Hann var kínverskur ríkisborgari, fæddur 1976, ferðamaður hér á landi ásamt eiginkonu sinni.
Tilkynning um slysið barst Neyðarlínunni kl. 10:39 í morgun. Lögregla, björgunarsveitir og sjúkraflutningamenn fóru þegar á vettvang og náðist maðurinn um borð í bát björgunarsveitar en lífgunartilraunir báru ekki árangur og var maðurinn úrskurðaður látinn á vettvangi.