Um hádegisbil á fimmtudag var stórri pallbifreið ekið á tvo ljósastaura við Langholt á Selfossi til móts við Fjölbrautaskólann. Það stöðvaði ekki ökumanninn sem hélt áfram og ók yfir gangbrautarskilti.
Ökuferðinni lauk svo eftir að bifreiðin stöðvaðist á stóru tré þar rétt hjá. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun.
Margt fólk er á göngu þarna á svæðinu á þessum tíma og svo var einnig þegar atvikið átti sér stað. Mátti litlu muna að illa færi þar sem tvær stúlkur höfðu augnabliki áður staðið við annan ljósastaurinn að losa sig við rusl í ruslafötu sem var á staurnum.
Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að ökumaðurinn verði kærður fyrir umferðarlaga- og hegningarlagabrot þar sem hann er talinn hafa stofnað lífi og heilsu annara í augljósan háska.