Stokkseyrarkirkja eignast safnaðarheimili

Stokkseyrarkirkja hefur fest kaup á Hafnargötu 10 og er ætlunin að þar verði safnaðarheimili. Húsið var í eigu Sveitarfélagsins Árborgar en kaupsamningurinn var undirritaður í morgun.

Á aðalsafnaðarfundi kirkjunnar í apríl sl. var samþykkt að gera tilboð í húsið sem stendur við hlið kirkjunnar. Sóknarnefndin bauð fimm milljónir króna í húsið og samþykkti bæjarráð tilboðið á fundi í júní.

Nokkrar endurbætur þarf að gera á húsinu sem byggt er árið 1927. Hafnargata 10 var síðast þjónustuskrifstofa sveitarfélagsins en á sínum tíma var þar hreppsskrifstofa Stokkseyrarhrepps og enn áður var rekin verslun í húsinu sem heimamenn kalla Ásgeirsbúð.

Að sögn Samúels Smára Hreggviðssonar, formanns sóknarnefndar Stokkseyrarkirkju, er þetta gleðilegur dagur fyrir sóknina. „Hingað til hefur ekki verið nein aðstaða nema í kirkjunni, t.d. fyrir fundi sóknarnefndar. Hér verður skrifstofa fyrir prestinn auk þess sem húsið nýtist í barnastarf og fyrir kirkjukórinn. Það er ætlun okkar að húsið muni einnig standa opið fyrir áhugasama aðila í sókninni til fundahalda og fyrir smærri samkomur,“ sagði Samúel Smári í samtali við sunnlenska.is.

Auk hans skrifuðu sr. Sveinn Valgeirsson, Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar og Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, undir kaupsamninginn. Eyþór sagði við þetta tækifæri að það væri ánægjulegt að húsið væri komið í hendur kirkjunnar og að nú yrði lífi blásið í það.

stokkseyri_hafnargata10_2011gk_869898719.jpg
Hafnargata 10 stendur við Stokkseyrarkirkju. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinÖruggur sigur á botnliðinu
Næsta greinHamar fær nýjan Kana