Stöldrum við og njótum líðandi stundar

WISE var meðal þeirra fyrirtækja og hópa sem tók þátt í deginum í fyrra, þegar hann var haldinn í fyrsta sinn. Ljósmynd/Aðsend

Fjáröflunar- og árvekniátak Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, stendur nú yfir. Kraftur vekur athygli á málefninu í átakinu og selur Lífið er núna armbönd sem eru perluð af sjálfboðaliðum víða um land.

Á morgun, fimmtudaginn 8. febrúar, hvetur Kraftur landsmenn alla að halda upp á Lífið er núna daginn og staldra við og njóta líðandi stundar með fólkinu í kringum sig. Dagurinn er tilvalinn í að nýta daginn og láta gott af sér leiða, hrósa fólki og sjálfum sér, nota spari-stellið og peysuna sem þú ætlaðir alltaf að nota við ákveðin tilefni. Ekki bíða eftir rétta mómentinu, búðu það til á Lífið er núna daginn.

Búum til gæðastundir
„Þetta er í annað sinn sem við höldum þennan dag og var dásamlegt að sjá í fyrra hvað fólk var fljótt að taka við sér og fagna honum með okkur,“ segir Þórunn Hilda, markaðs- og kynningarfulltrúi Krafts. „Við hvetjum alla í samfélaginu að njóta dagsins til hins ýtrasta. Búa til einhverja gæðastund með samstarfsmönnum, vinum og vandamönnum eða jafnvel bara ókunnugum og hrósa fólki og minna sig og aðra á að staldra við og fanga augnablikið,“ bætir Þórunn Hilda við.

Appelsínugulur dagur
Kraftsliturinn er appelsínugulur og því hvetur félagið sem flesta til að klæðast þessum orkumikla lit á fimmtudaginn. Svo er hægt að fá flottar partýveifur, Lífið er núna servíettur og ýmsar aðrar vörur hjá Krafti sem geta hjálpað fólki að fagna deginum. „Við hvetjum auðvitað líka alla til að fá sér nýja Lífið er núna armbandið og bera það og minna sig einmitt á að lífið er núna. Armböndin í ár eru sérlega hátíðleg í tilefni af 25 ára afmæli Krafts,“ segir Þórunn Hilda að lokum.

Hægt er að nálgast Lífið er núna armböndin meðal annars í vel völdum Krónuverslunum, í vefverslun Krafts www.lifidernuna.is og hjá Krabbameinsfélagi Árnessýslu. Allur ágóði af sölu armböndunum rennur í starf Krafts í þágu ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur og eru öll armböndin perluð af kröftugum sjálfboðaliðum.

Fyrri greinSelfoss valtaði yfir úrvalsdeildarliðið
Næsta greinBlása lífi í starf Bókabæjanna