Stolinn Land Rover sást síðast á Skeiðavegi

Bláum Land Rover jeppa með hvítum toppi var stolið af bílastæði í Reykjavík um síðustu helgi. Bíllinn sem er árgerð 1967 er talinn hafa sést á bílpalli á Skeiðavegi síðastliðinn sunnudag.

FÍB auglýsti eftir bílnum í morgun og hefur fengið ábendingar um það að hann hafi mögulega sést á bílpalli á milli Selfoss og Hellu á austurleið í hádeginu síðastliðinn sunnudag. FÍB hefur mikinn áhuga á að ná tali af þeim sem kannast við dökka Toyota Land Cruiser bifreið, mögulega með lituðum rúðum, með Land Rover á kerru á Skeiðavegi um kl. 13 á sunnudag. Bíllinn er talinn hafa beygt inn á Vorsabæjarveg við Brautarholt á Skeiðum.

Bílnum var stolið einhverntíman á tímabilinu frá laugardagskvöldinu 6. september til mánudagsmorgunsins 8. september. Hann var númerslaus og ógangfær og stóð á bílastæði bak við Skúlagötu 19 í Reykjavík. Hægra framdekk hans var loftlaust.

Land Rover bíllinn er mjög áþekkur þeim sem myndin hér til hliðar er af, nema að á honum var toppgrind. Hann var lengst af í eigu Bílaleigu Akureyrar en síðan hafa tveir hinna landsþekktu Álftagerðisbræðra átt bílinn. Fyrir nokkru var hann gefinn Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og til stóð að gera hann upp og útbúa hann og merkja sem þjónustubíl FÍB eins og þeir voru á árunum 1960-1970 og átti sú vinna að hefjast fljótlega. Aðili á Reykjanesi sem komið hefur upp vönduðu bíla- og vélasafni hugðist láta vinna það verk í samstarfi við FÍB og varðveita bílinn síðan í safninu.

Ljóst er að talsvert umstang hefur verið að fjarlægja bílinn af bílastæðinu og hefur það trúlega verið gert með því að draga hann upp á einhvers konar bílaflutningatæki; vagn eða flutningabíl.

Þeir sem kunna að hafa séð þegar bíllinn var fjarlægður eða hafa einhverja vitneskju um hvarf hans, eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við lögregluna í Reykjavík og/eða við FÍB í síma 414 9999 eða um netfangið fib@fib.is.

Starfsfólk FÍB hvetur þann sem hefur bílinn undir hönfum til þess að senda nafnlausa ábendingu um það hvar bíllinn er niðurkominn og FÍB mun nálgast hann án frekari eftirmála.

FÍB vill einungis fá bílinn tilbaka til að geta sett hann á safn og varðveitt til að segja sögu hans komandi kynslóðum þar sem hann aðstoðaði fjölmarga ökumenn.

UPPFÆRT 11.9.2014 KL. 12:03

Fyrri greinFestu bílinn í Álftavatnakróki
Næsta greinÁ slóðum Shakespeare