Eftir áramótin hefur stór hópur útlendinga stundað íslenskunám hjá Fræðsluneti Suðurlands á Hvolsvelli. Í vikunni lauk náminu og voru það alls 43 nemendur sem útskrifuðust.
Námið sem er 60 stunda langt hefur verið kennt einu sinni í viku frá því í janúar. Kennt var í þremur hópum, íslensku I-III. Kennarar voru þau Auður Friðgerður Halldórsdóttir og Jaroslaw Dudziak sem bæði starfa sem kennarar við Hvolsskóla. Þátttakendur voru starfsmenn nokkurra fyrirtækja á svæðinu, s.s. Hótels Rangár, Reykjagarðs, Prjónavers og SS, auk fleiri þátttakenda sem búa í sýslunni.
Hátt hlutfall íbúa í Rangárvallasýslu er af erlendu bergi brotið og margir hafa búið og starfað þar lengi, en aðrir eru nýlega komnir til landsins. Allir eru á einu máli um að íslenskukunnátta skipti sköpun fyrir útlendinga til að geta tekið þátt í samfélaginu og nýtt sér þau tækifæri sem það hefur uppá að bjóða.
Skiptir hvatning fyrirtækjanna miklu máli svo að starfsmenn hefji formlegt nám í íslensku og flest fyrirtæknin greiða fyrir sína starfsmenn, en starfmenntasjóðir styrkja einnig nám af þessu tagi. Fyrirtækin geta sótt um styrk beint til starfsmenntasjóðanna og skeðir sá styrkur ekki einstaklingsstyrki þátttakenda.