Stór sinueldur í Tjarnabyggð

Slökkviliðsmaður bankar niður eldinn í sinunni í Tjarnabyggð. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eldur kviknaði í sinu í Tjarnabyggð í Sandvíkurhreppi á þriðja tímanum í dag. Allur tiltækur mannskapur frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi var kallaður á vettvang ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum.

„Það var alveg svaðalegur mökkur sem mætti okkur þarna enda eldsmaturinn mikill og jarðvegurinn mjög þurr,“ sagði Halldór Ásgeirsson, varðstjóri hjá BÁ, í samtali við sunnlenska.is. „Við erum á lokametrunum með þetta núna,“ bætti Halldór við þegar Sunnlenska ræddi við hann klukkan rúmlega hálf fjögur.

Tjarnabyggð er íbúabyggð í dreifbýlinu í Árborg og lagði mikinn reykjarmökk yfir mörg hús á svæðinu.

„Það voru engin hús í yfirvofandi hættu, þetta fór nálægt einu útihúsi en það var aðallega bara reykurinn sem lagðist yfir byggðina, feitur reykur,“ sagði Halldór og giskaði á að tveir til þrír hektarar af gróðri hafi brunnið. Það byrjaði að rigna um leið og slökkviliðið mætti á vettvang en úrkoman dugði ekki til að hjálpa til við slökkvistarfið.

„Það var allt tiltækt lið frá Selfossi kallað á vettvang og tankbíll frá Hveragerði. Við fengum líka Björgunarfélag Árborgar og Hjálparsveitina Tintron á Grímsnesi á staðinn með dróna, það mæta allar tiltækar bjargir í svona verkefni,“ bætti Halldór við að lokum.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar upptök eldsins.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÁrborg og Ægir úr leik í bikarnum
Næsta greinSigurkarfan kom úr skrúðgarðinum