Stór aurskriða féll úr Dyrhólaey í gær, föstudag, en lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningu um skriðuna skömmu fyrir myrkur og því hafa aðstæður þar ekki enn verið skoðaðar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni varð hrunið á milli Háeyjar og Lágeyjar, utan merktrar gönguleiðar.
Þar sem líklegt er að meira hrun verði biður lögreglan fólk vinsamlegast um að vera ekki á ferðinni í Dyrhólaey að óþörfu.
Síðasta stóra skriða sem í Dyrhólaey féll þann 5. maí síðastliðinn úr vesturhlíðum eyjarinnar og var hún um 120 metra breið.