Í vesturhluta Mýrdals hefur verið aftakaveður í kvöld. Björgunarsveitin Víkverji frá Vík hefur haft í nógu að snúast við að hefta fok.
Við bæina frá Pétursey og vestur úr hefur orðið nokkurt tjón á útihúsum en íbúðarhús hafa sloppið hingað til.
Sem dæmi um veðurofsann þá fauk stór vörubíll sem notaður er til malarflutninga á hliðina á bæjarhlaðinu við Pétursey. Gert er ráð fyrir að veðrið í Mýrdalnum sé nú í hámarki en verði þó viðvarandi slæmt í nótt.
Um 70 manns munu gista í fjöldahjálparstöðinni í Hofgarði í Öræfum í nótt. Um er að ræða ferðalanga sem björgunarsveitir sóttu á Skeiðarársand í kvöld sem og þá sem höfðu komið sér sjálfir í skjól í Freysnesi. Hafði fólkið lent í grjótfoki og eru margir bílar illa farnir, rúður jafnvel brotnar auk þess sem hurðir fuku upp. Brynvarinn bíll Björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum var notaður til að sækja fólkið. Hann er nú á leið í Jökulsárlón og á Skeiðarársand til að athuga hvort fleiri ferðamenn þarfnist aðstoðar.
Frá klukkan 18:00 hefur verið tilkynnt um fok á Laugarvatni, í Landeyjum, Vík og Árborg og Akureyri. Um hefur verið að ræða þakplötur og þök, gáma og tré sem hafa fallið.