Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var heiðursgestur á Degi íslenskrar tungu í Hvolsskóla á Hvolsvelli.
Eins og venjulega var vegleg dagskrá í skólanum á þessum degi, þar sem nemendur lásu meðal annars upp úr Njálu. Guðni flutti virkilega skemmtilega ræðu sem sló algjörlega í gegn hjá öllum aldurshópum.
Í þessari sömu viku rataði forsetinn í fjölmiðla vegna „stóra buffmálsins“ og svo skemmtilega vildi til að hann fékk annað höfuðfat að gjöf í heimsókninni í Hvolsskóla.
Margrét Jónsdóttir, starfsmaður á skrifstofu Rangárþings eystra, prjónaði handa forsetanum glæsilega lopahúfu sem honum var færð og eins og sjá má tekur hann sig vel út með húfuna.
Margréti barst síðar þakkarbréf frá Guðna en í bréfinu minntist hann einnig á hversu ánægjulegur dagurinn var í Hvolsskóla.
Forsetinn skrifaði m.a.:„… það var einstaklega gaman að koma í skólann á Hvolsvelli, kynnast kátum krökkum og sjá með eigin augum þann metnað sem svífur þarna greinilega yfir vötnum. Með skóla eins og þennan, fullan af flottum nemendum, höfum við ekkert að óttast og getum horft björtum augum til framtíðar.“