Eitt af fyrstu verkum meirihluta Sjálfstæðismanna í Árborg var að leysa úr stóra kaffimálinu í sundlaugum sveitarfélagsins.
Fyrri meirihluti hafði í sparnaðarskyni tekið fyrir að kaffi væri í boði í sundlaugunum og í kjölfarið birtist dramatísk mynd af tómri veitingahillu Sundhallar Selfoss í bæjarblaðinu Dagskránni.
Á fundi bæjarráðs í morgun samþykkti bæjarráð að boðið verði upp á kaffi í sundlaugum Árborgar og settur upp kaffibaukur fyrir frjáls framlög.
Ragnheiður Hergeirsdóttir, fulltrúi minnihlutans og fyrrverandi bæjarstjóri, bætti um betur og vildi að boðið yrði upp á kaffi, te og djús á sundstöðunum.
Tillögu Ragnheiðar var vísað til umsagnar forstöðumanns sundlauga Árborgar, Þórdísar Sigurðardóttur. Þórdís ætti ekki að þurfa langan tíma til að kynna sér málið en hún sat bæjarráðsfundinn sem áheyrnarfulltrúi Vinstri-grænna.