Stóra-Laxá rauf stíflu við Laxárdal eftir hádegi í dag og ruddist niður farveg sinn í kjölfarið. Brúarsmíðin við Stóru-Laxá virðist ekki vera í hættu.
„Þetta er orðið rólegt hjá okkur núna. Það voru miklar drunur og svo kom hún í einni gusu niður dalinn og hélt sína leið niðureftir. Ég hef ekki séð þetta gerast með berum augum áður og það var merkilegt að fylgjast með þessu. Áin fór upp á allar eyrar og aðeins upp á tún hjá okkur en þetta hefur svosem gerst áður. Þetta var ansi skrautlegt,“ sagði Ragnheiður Hallgrímsdóttir á Sólheimum í samtali við sunnlenska.is.




Hjáveituaðgerðin virkaði vel
Um tíu mínútur fyrir tvö barst fljóðbylgjan niður að brúnni við Laxárholt en þar var gerð hjáveituaðgerð á farvegi árinnar á fimmtudag til þess að forða nýju brúarsmíðinni frá stórtjóni.
Gunnlaugur Emilsson á Flúðum var staddur við brúnna þegar flóðið náði þangað. „Þetta virðist hafa verið einn toppur og er ekkert að aukast frekar. Klakinn situr eftir að mestu leiti á eyrunum fyrir ofan brúnna og vatnið rennur bæði undir brúnna og í nýja farveginum framhjá brúnni. Ef þeir hefðu ekki breytt farveginum þá hefði allt klakadraslið komið á undirstöður nýju brúarinnar,“ sagði Gunnlaugur í samtali við sunnlenska.is.
Neðst í fréttinni má sjá myndband sem Gunnlaugur tók við brúna.

