Stórbruni í Brekkuskógi

Eldur kom upp í stóru iðnaðarhúsnæði við Brekku í Biskupstungum eftir hádegi í dag. Húsið varð alelda og er ljóst að tjónið er mikið. Slökkvistarf stendur ennþá yfir.

Neyðarlínan fékk boð um eldinn kl. 13:44 í dag og voru slökkvilið Brunavarna Árnessýslu í Reykholti, á Laugarvatni og Selfossi kölluð á vettvang ásamt sjúkrabílum og lögreglu. Um 40 slökkviliðsmenn eru á vettvangi. Enginn var inni í húsinu þegar eldurinn kom upp og engum varð meint af en eldsupptök eru ekki ljós.

Mikill eldur var í húsinu og þar inni eru gaskútar þannig að sprengihætta er á svæðinu. Nokkrar sprengingar hafa heyrst en ekki er vitað hversu margir gaskútar eru innanhúss.

Gríðarleg hætta var á að gróður og skógareldur myndi breiðast út í kjölfar brunans en slökkviliðsmenn náðu að koma í veg fyrir það og vinna þeir enn að slökkvistarfi í húsinu.

Sem fyrr segir eru eldsupptök ekki ljós en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi mun taka málið til rannsóknar í framhaldinu.


sunnlenska.is/Magnús Stefán Sigurðsson

UPPFÆRT KL. 15:14

Fyrri greinLoka Stofunni og flytja til Svíþjóðar
Næsta greinSelfoss vann stigakeppni mótsins