Allt tiltækt lið Brunavarna Árnessýslu frá Selfossi og Þorlákshöfn berst nú við eld í iðnaðarhúsnæði í Hoftúni, norðan við Stokkseyri. Mikill eldur er í húsinu.
Neyðarlínan fékk boð um eldinn um klukkan 17:20 í dag. Reykurinn frá eldinum sást um allan Flóann og barst að hluta yfir þorpið á Stokkseyri og er íbúum þar ráðlagt að loka gluggum.
„Þetta er talsvert stórt hús og mikill eldur í því. Við erum með menn og bíla frá Selfossi og Þorlákshöfn ásamt tankbíl frá Hveragerði á leiðinni á vettvang,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við sunnlenska.is. „Það er talsvert rok á svæðinu og því ekki mikil hætta af reyknum en það er vissara að þeir sem finna fyrir honum loki hjá sér gluggum,“ sagði Pétur ennfremur.