„Sá niðurskurður sem boðaður er á Heilbrigðisstofnun Suðurlands er gríðarlegur og með öllu óskiljanlegur,“ segja hjúkrunarfræðingar á Suðurlandi.
Boðað hefur verið að fjárframlög til sjúkrasviðs HSu muni lækka um 412 milljónir króna á næsta ári, en það jafngildir rekstri hand- og lyflæknisdeildar, skurðstofu og fæðingardeildar.
Stjórn Suðurlandsdeildar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur sent frá sér ályktun þar sem eftirfarandi kemur fram:
„Þjónusta HSu nær til um 20.000 manns og teljum við verulega vera vegið að öryggi þeirra. Hafa ber í huga að þjónustan nær allt frá Kirkjubæjarklaustri til Þorlákshafnar og Hveragerðis, Það getur því verið um langan veg að fara og oft illfæran, Hellisheiði er fljót að lokast ef eitthvað er að veðri og þá er ekki gott að vera á ferð með fæðandi konu eða bráðveikan sjúkling. Veðurguðirnir hafa verið okkur góðir að undanförnu en það er ekki alltaf svo.
Jarðskjálftar og eldgos hafa dunið á okkur á síðasta áratug og höfum við sinnt þeim einstaklingum sem þurft hafa á hjálp að halda eftir þá atburði. Talað er um öryggissjúkrahús á Akranesi t.d. ef eldgos yrði. Eru allir búnir að gleyma Heklugosinu þegar fjöldi manns sat fastur í vitlausu veðri á Hellisheiði og í Þrengslum? Eru allir búnir að gleyma því að Ölfusárbrú og Óseyrarbrú lokast í Suðurlandsskjálftum?
Við þurfum að standa vörð um þá sem þurfa á okkar þjónustu að halda, aðstandendur þeirra og um störf þeirra sem vinna á sjúkrasviðinu og stoðdeildum þess.
Í Suðurlandsdeild Fíh á þessu svæði eru 117 hjúkrunarfræðingar, 22 störf hjúkrunarfræðinga eru í hættu þ.e. 19%.
Við mótmælum harðlega.“